Heimsókn SFH í Hugverkastofuna

22. september 2022

Fyrsta fræðslu- og fyrirtækjaheimsókn haustsins var í Hugverkastofuna sem er opinber stofnun undir yfirstjórn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Stofnunin tók til starfa þ. 1. júlí 1991 undir heitinu „Einkaleyfastofan“ og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins. Þann 1. júlí 2019 var nafni stofnunarinnar breytt og ber stofnunin nú heitið Hugverkastofan.

Á fundinum fengum við frábæra og mjög gagnlega kynningu á starfsemi stofnunarinnar sem var í höndum Margrétar Ragnarsdóttur lögfræðings hugverkasviðs.  Henni til halds og trausts var Eiríkur Sigurðsson samskiptastjóri.  

Margrét og Eíríkur

Á fundinum fengum við ítarlega og skemmtilega kynningu á starfsemi Hugverkastofu og hinna ýmsu sviða þar á bæ og var fjallað um hugverk og hugverkaréttindi og lagalegan grundvöll stofnunarinnar og umsóknarferli þegar við sækjum um hönnunarvernd, vörumerki og einkaleyfi. Einnig var rætt um viðskiptaleyndarmál og höfundarrétt o.fl. spennandi málefni.

Rétt er að benda á heimasíðu Hugverkastofnunar www.hugverk.is en þar er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir hugvitsmenn og frumkvöðla. Þar er einnig að finna leitarvél fyrir vörumerki, einkaleyfi og hönnun á Íslandi https://www.hugverk.is/leit/einkaleyfi.

Einnig skal bent á þá viðamiklu ráðgjöf sem öllum hugvitsmönnum og frumkvöðlum stendur til boða hjá stofnuninni.

Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur og skemmtilega og fróðlega fræðslu um hugverk og hugverkavernd sem kemur okkur öllum til góða.

Sjáumst öll í næstu fræðslu- og fyrirtækjaferð!