Sagan

Skuttogarinn er íslensk uppfinning

Saga og starf íslenskra hugvitsmanna
er samofin Íslandssögunni.  Þjóðin hefur lengst af verið samfélag bænda og útvegsmanna. Af þessu hefur leitt að margar þeirra hugmynda sem við vitum elstar af hendi íslenskra hugvitsmanna, hafa tengst búskap og sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti.  Líklegt er að hinar óvenjulegu aðstæður sem mættu fyrstu kynslóðum eftir landnám hafi kallað á verulega hugkvæmni við lausn vandamála.  Við sjáum þess víða stað, s.s. í húsagerð, lífsháttum og áhöldum.  Ekki reyndi síður á hugvitið þegar þrengdi að með kólnandi tíðarfari og vaxandi einangrun landsins.  Okkar merki bókmenntaarfur geymir ýmsar frásagnir af hugkvæmum einstaklingum.  Ýmislegt hefur þó torveldað starf hugvitsmanna. Því fylgir tími, kostnaður og áhætta að fara af stað með nýjar hugmyndir, en ekki bætir úr skák að samtíðin er allajafna fremur tortryggin á nýjungar; íhaldsöm á gamla siði og sein til að hagnýta sér nýjar lausnir. Margar góðar uppfinningar hafa  orðið gleymskunni að bráð vegna skorts á nauðsynlegum skilningi til að nýta möguleikana sem þær höfðu í för með sér. Og þjóðin hefur ekki verið minnug á sína hugvitsmenn.  Enn er ekki komið upp íslenskt fumgerðasafn; enn er ekki hafin ritun á sögu íslenskra hugvitsmanna.  Þetta veldur því að stöðugt glatast mikil menningarverðmæti, eins og bent hefur verið á.  Skilningsleysi samtíðarinnar gagnvart hugvitsmönnum er enn samt við sig.

Fyrstu samtök íslenskra hugvitsmannaurðu til árið 1986.  Félag íslenskra hugvitsmanna var stofnað í framhaldi af sýningu á því ári.  Fékk það aðstöðu að Lindargötu 46 í Reykjavík, og starfaði undir sjö manna stjórn.  Nokkrum árum síðar var gerð formbreyting á þessu félagi, og nafni þess breytt í Landssamband hugvitsmanna (LHM).  Stórhugur var mikill, og gert ráð fyrir starfsdeildum í öllum landshlutum.  Hinn virki kjarni félagsins var þó fremur lítill en öflugur hópur frumkvöðla og hugvitsmanna sem vildu bera saman bækur sínar; styrkja böndin og efla frumkvöðlastarf í landinu.