Hvaða aðstoð er í boði?

 
VIÐ AÐSTOÐUM ÞIG – Hvernig félagsskapur er SFH?

Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna er tengslanet fólks sem vill efla nýsköpun.  Félagsmenn geta verið þar af margbreytilegum ástæðum og haft fjölbreyttan bakgrunn.  Þetta er m.a. félag þeirra sem hafa hugmynd að nýrri tækni eða aðferð og vilja gera hana að raunveruleika.  Aðrir hafa e.t.v. góða viðskiptahugmynd sem þeir vilja nýta.  Enn aðrir eru komnir áleiðis með sínar hugmyndir en vilja efla og þróa einhverja þætti þeirra.  Svo eru þeir sem eru ekki að þróa eigin hugmynd, en hafa áhuga á nýjungum og frumkvöðlastarfsemi; vilja fylgjast með og jafnvel leggja sitt af mörkum til framfara.
Allir geta fengið nytsamar hugmyndir; áháð aldri, kyni, menntun eða stöðu.  Þessvegna eru engin slík inntökuskilyrði í SFH. 

Hvers vegna ætti ég að gerast félagi í SFH?

Fyrst og fremst er SFH skemmtilegur og sérstæður félagsskapur fólks sem er í fremstu víglínu framfara og þróunar:  Fólks sem vinnur að því að móta framtíðina og leysa úr viðfangsefnum. 
Aðild að SFH getur haft marga kosti fyrir þá sem vinna að verkefnum á sviði nýsköpunar.  Hér verður fjallað um nokkur úrræði sem SFH býður félagsmönnum sínum:

1.  Tækifæri til að kynnast öðrum frumkvöðlum.

Á aðalfundum og málfundum samtakanna gefst færi á að kynnast hinum margvíslegu viðfangsefnum félagsmanna.  Vandfundinn er sá félagsskapur sem hefur fjölbreyttari eða nýstárlegri viðfangsefni en SFH.  Fjölbreytnin og nýjabrumið er það sem gerir félagsstarfið einstaklega líflegt og veitir félaginu styrk.  Segja má að félagið sé suðupottur nýrra hugmynda og uppspretta tækifæra.

2.  Ráðgjöf frá reyndum félögum á jafningjagrunni.

Innan félagsstarfsins er að finna fólk með mikla og margvíslega reynslu af því að koma hugmyndum í framkvæmd.  Þetta fólk veit af reynslunni hvaða veggi og hindranir er að finna í kerfinu og hvaða leiðir er vænlegast að fara.  Ráðgjöf frá því fólki getur verið ómetanleg fyrir þá sem skemmra eru komnir.  Þetta er eflaust mikilvægasta þjónustan sem félagið býður nýjum félagsmönnum sem þurfa að “fást við kerfið”. 
Eftir að nýliðinn hefur óskað eftir þannig aðstoð, fær hann viðtal við einn eða fleiri félagsmenn á þeim sviðum sem helst eru talin gagnast hans viðfangsefni.  Sú ráðgjöf getur verið á sviði stofnanaumhverfis; styrkjamöguleika eða annars sem leysa þarf úr.  Niðurstaðan eftir slíkt viðtal getur svo t.d. orðið sú að nýliðinn leitar til annarra sérfræðinga; annaðhvort innan félagsins eða hjá öðrum aðilum.

3.  Þjónusta sérfræðinga á ýmsum sviðum innan félagsins.

Viðtöl við ráðgjafa eða stjórnendur SFH geta leitt til þess að nýliðanum er vísað til einhvers af hinum fjölmörgu sérfræðingum sem starfa innan félagsins.  Þar getur t.d. verið um að ræða viðskiptafræðing til aðstoðar við gerð viðskiptaáætlunar; verkfræðing til að meta tæknilega þætti; markaðssérfræðing vegna markaðsáætlana; auglýsingahönnuð vegna vefsíðugerðar o.fl; lögfræðing vegna álitaefna í þeim efnum; og svo fólk með margvíslega menntun og reynslu t.d. á sviði styrkumsókna; samstarfsleitar o.fl.  Allir þessir félagar í SFH eru reiðubúnir að veita fyrstu viðtöl og byrjunaraðstoð án endurgjalds, og það getur verið dýrmætt fyrir þann sem er að byrja af litlum efnum.
Ef niðurstaða þessara byrjunarviðtala verður sú að verkefnið sé óraunhæft og verði því ekki þróað frekar, er líklegt að ekki verði rukkað um greiðslur.  Ef verkefnið þróast hinsvegar áfram eru líkur á að það njóti styrkja af einhverju tagi.  Þá er kominn grunnur til að það geti greitt fyrir þá sérfræðiaðstoð sem til þarf, hvort sem sú aðstoð er frá félagsmönnum SFH eða öðrum. 

4.  Tækifæri til kynninga á sameiginlegum vettvangi.

Kynning á verkum félagsmanna er eitt af viðfangsefnum SFH.  Þar er annarsvegar um að ræða nýsköpunarsýningar, líkt og stundum hafa verið haldnar áður.  Vonandi tekst að gera þær að árlegum viðburði með eflingu félagsins.  Hinsvegar hyggst félagið endurvekja félagsblaðið “Hugvit” og nota það m.a. til kynninga á því sem félagsmenn eru að fást við.  Að sjálfsögðu er gætt trúnaðar um þau atriði sem hugvitsmaðurinn vill halda leyndum.  Þannig kynningar geta gegnt þýðingarmiklu hlutverki á margan hátt.  T.d. til að koma nýjum uppfinningum eða aðferðum á framfæri og til að efla áhuga á nýsköpun.
Þá hefur SFH það á sinni stefnuskrá að koma upp safni uppfinninga og frumgerða, og hefur unnið að því í samvinnu við ÁTAK, sem er undirbúningsfélag Tæknimiðstöðvar Íslands.

5.  Áhrif til úrbóta á starfsumhverfi frumkvöðla.

SFH berst fyrir úrbótum á stuðnings- og starfsumhverfi frumkvöðla, sem hefur verið ábótavant að ýmsu leyti.  Það dylst engum sem skoðar lög og framkvæmd reglna um nýsköpun og þróun að það umhverfi þjónar fyrst og fremst hinu akademíska samfélagi, en ekki hugvitsfólki sem starfar utan þess.  Þannig virkar núverandi kerfi ekki sem hvatning til þess að hugvit allra þjóðfélagsþegna nýtist til eflingar á þjóðarhag.  Þetta er samhljóða reynsla allra þeirra sem reynt hafa að þróa sínar hugmyndir utan háskólastofnana.  Allir gera sér grein fyrir mikilvægi menntunar.  Innan SFH starfar hlið við hlið fólk með víðtæka háskólamenntun og fólk sem einungis hefur grunnmenntun.  Allt er þetta fólk sammála um að núverandi stuðningskerfi nýsköpunar þurfi mikilla lagfæringa við. 

Sem dæmi um ágalla kerfisins má nefna að stjórnarmenn helstu nýsköpunarsjóða okkar; Rannís og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands koma ýmist úr umhverfi háskóla eða stórfyrirtækja.  Þar er enginn fulltrúi almennra frumkvöðla.  Eftir því er svo vinnulagið; en þessar stofnanir hafa hneigst mjög til þess að hafna aðstoð við almenna frumkvöðla sem standa utan háskóla; rannsóknastofnana og stórra fyrirtækja.  SFH vill að löggjöf í þessum efnum verði endurskoðuð.  Einnig telja samtkin eðlilegt að þau, sem samtök einyrkja og smáfyrirtækja í nýsköpun, fái aðild að stjórnum og fagráðum þessara sjóða.  Þá vilja samtökin vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld í málefnum sem þau varða.

Með aðild sinni að SFH geta nýir félagsmenn haft áhrif á framgang þessara úrbótamála. Hér hafa verið taldir nokkrir kostir þess að vera félagi í SFH.  Ef þu vilt vita meira þá hafðu samband.

Hafðu samband.
Símanúmer og netföng stjórnarmanna SFH er að finna hér.