Fyrstu skrefin

Hvað á ég að gera við nýja og frábæra hugmynd?


Ert þú frumkvöðull eða hugvitsmaður?

Öll reynum við að leysa úr vandamálum; komast af; auka afköst og létta okkur lífið.  Stundum kemur fyrir að við förum nýjar leiðir og finnum nýjar lausnir.  Þá má segja að við “hugsum útfyrir kassann”.  Það getur gerst með ýmsu móti.  Sumir eiga létt með að hugsa óhefðbundið, og virðist sem þeir hafi eitthvað eðlislægt innsæi og útsjónarsemi.   Aðrir leita nýrra og betri lausna á einu tilteknu vandamáli, oft með rökfræðina eina að vopni.  Og svo eru þeir sem detta niður á lausn fyrir tilviljun.  

Hugtök hafa verið dálítið á reiki í þessum efnum.  Hér eru skilgreiningar SFH:

“Hugvitsmaður”, eða “uppfinningamaður” (e: inventor) er sá sem finnur upp ný tæki, nýja vöru eða nýja þjónustu.  “Frumkvöðull” (e: innovator) er sá sem drífur áfram nýjung og kemur henni í hagnýt not. 

Frumkvöðull getur því kallast hver sá sem beitir nýrri aðferð, hvort sem það er á sviði þjónustu eða tækni.  Félagsmenn í SFH geta yfirleitt fallið í annanhvorn þessara flokka eða báða, en félagið er einnig opið öllum þeim sem hafa áhuga á þessum sviðum og vilja efla framgang þeirra, jafnvel þó þeir sjálfir stundi ekki frumkvöðlastarf.
Rétt er þó að bæta því hér við að sumir vilja nota þrengri skilgreiningar.  Telja þeir að sá geti ekki talist uppfinningamaður sem innleiðir nýja aðferð í þjónustu og viðskiptum, heldur einungis þeir sem hafi sýnt fram á aðferð eða tæki sem talist geti einkaleyfishæft.  Almennt er talið að orðin “frumkvöðull” og “nýsköpun” séu orðin ofnotuð og útþynnt á síðari árum.

Gerðu eitthvað í málunum!

Hvað á að gera ef maður hefur góða hugmynd sem virðist vera ný og betri en þær sem fyrir eru; geti skapað verðmæti; létt vinnu eða á annan hátt orðið til framfara?  Hægt er að fara ýmsar leiðir til að sannreyna hugmyndina og hrinda henni í framkvæmd, og um sumar þeirra verður rætt hér.  Það sem ætti síst að gera er að kasta hugmyndinni frá sér að ástæðulausu, eða geyma úrvinnslu hennar svo lengi að hún gleymist eða aðrir grípi frumkvæðið.  Hinsvegar er alltaf gott að “rasa ekki um ráð fram” og hugsa vel og rökrétt áður en lagt er í aðgerðir.  Hér er bent á nokkur ráð fyrir þá sem eru með hugmynd á upphafsstigi.

Fyrsta skref:  Rökhugsun og sjálfsmat.
Sá sem heldur að hann hafi fundið nýja og einstaka lausn ætti m.a. að íhuga eftirfarandi:

  • Er ég með uppfinningu (hugmynd, aðferð, vöru) sem ekki hefur verið til/notuð áður?
  • Er mín uppfinning á einhvern hátt betri en það sem áður var þekkt?
  • Er ég að þjóna nýjum neysluhópi, eða gera það með betri aðferðum?
  • Get ég boðið mína aðferð/vöru/þjónustu á betra verði en aðrir?

Ef þú ert viss um að geta svarað a.m.k. einu þessara atriða játandi, þá ertu einu skrefi nær því að teljast uppfinningamaður og/eða frumkvöðull.  En svör við þessum spurningum liggja ekki alltaf í augum uppi.  Oft þarf að fara í mikla upplýsingaleit og/eða útreikninga.  Því svörin verða að fást og vera rétt.  Því betur og sanngjarnar sem þú metur hugmynd þína í byrjun; því betur gengur þér að gera hana að raunveruleika.  Erfiðleikar við að svara þessum spurningum hafa fælt marga frá því að koma hugmyndum á framfæri, og þannig hafa fjöldamörg tækifæri glatast.  Misjafnt er hve menn eru ráðagóðir og útsjónarsamir við upplýsingaleit.  Góð og víðtæk eigin þekking er mikill kostur; hvort sem hennar er aflað með sjálfsnámi eða í skóla.  Internetið getur veitt gífurlegar upplýsingar, kunni fólk að nota það.  Stundum liggur fyrir hvar upplýsinga er að leita, en í öðrum tilvikum getur þurft að nota leitarvélar.  Þá er mikilvægt að geta gert sér grein fyrir leitarorðum og aðalatriðum.  Upplýsingar má einnig fá úr bókum og öðru prentmáli, og þá getur verið gott að leita á bókasöfnin. 

Svo er sjálfsagt að leita til þeirra sem kunna að geta veitt leiðbeiningar og góð ráð, án þess að kostað sé of miklu til í upphafi.  E.t.v. leynist nytsöm þekking í kunningjahópnum, en einnig eru starfandi ráðgjafastofur sem hafa hlutverk á þessu sviði.  Annarsstaðar á þessari vefsíðu er yfirlit yfir nokkra slíka aðila.  En kannski liggur beinast við að leita ráða hjá jafningjum sem þurft hafa að kljást við svipuð vandamál.  Hafðu samband við SFH og kannaðu hvaða stuðningsleiðir eru þar í boði.