Fréttir frá Hugverkastofu

Alþjóðleg lyfjafyrirtæki eiga flest skráð einkaleyfi og vörumerki hér á landi

Marel, Össur og Hampiðjan með flest íslensk einkaleyfi innlendra aðila

Alþjóðleg lyfjafyrirtæki skipa öll efstu fimmtán sætin á lista yfir þau fyrirtæki sem eiga flest einkaleyfi hér á landi. Níu af þeim fimmtán fyrirtækjum sem eiga flest skráð vörumerki eru einnig alþjóðleg lyfjafyrirtæki. Þau fyrirtæki sem eiga flestar hönnunarskráningar eru fjölbreyttari en meðal þeirra eru erlendir bíla- og úraframleiðendur áberandi. Þessar upplýsingar og margt fleira má finna í nýútgefinni gagnvirkri tölfræði á vef Hugverkastofunnar.

Alls eru skráð tæplega 9.500 einkaleyfi á Íslandi og ríflega 60.000 vörumerki. Hönnunarskráningar eru  ríflega 1.400.

Á síðunni er m.a. hægt að nálgast upplýsingar um umsækjendur og eigendur hugverkaréttinda hér á landi, eftir löndum. Ef aðeins er horft til íslenskra aðila eru í gildi 89 einkaleyfi hér á landi, tæplega 7.000 skráð vörumerki og 129 hönnunarskráningar. Marel á flest einkaleyfi, ellefu talsins og Össur og Hampiðjan næstflest, 10 hvort fyrirtæki. Actavis á flest skrásett vörumerki eða 479,  Ölgerðin Egill Skallagrímsson á 122 og Mjólkursamsalan 93. Flestar hönnunarskráningar eru í eigu einstaklinga.

Þegar horft er til þess hvaðan þau fyrirtæki eru sem eiga flest hugverkaréttindi hér á landi verma bandarísk fyrirtæki toppsætið bæði hvað varðar einkaleyfi og vörumerki. Þýsk fyrirtæki fylgja þeim fast á eftir varðandi hvort tveggja. Flest fyrirtæki sem eiga skráða hönnun eru svissnesk, þá koma íslensk fyrirtæki og bandarísk fyrirtæki eru þar í þriðja sæti.

Hægt er að sækja um skráningu hugverkaréttinda á vef Hugverkastofunnar.

Um Hugverkastofuna

Hlutverk Hugverkastofunnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnunin veitir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði og vinnur að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi. Hugverkastofan heyrir undir nýtt ráðuneyti háskóla, nýsköpunar og iðnaðar.