Stofnanir og sjóðir

Hér verður skyggnst í stuttu máli yfir stuðningsumhverfi nýsköpunar.  Þetta er alls ekki tæmandi lýsing, og þeir sem vinna að nýsköpun eru hvattir til að leita sér upplýsinga á þeim sviðum sem þeim helst hentar.  Hugmyndir og verkefni eru af margvíslegum toga og þá hljóta úrræðin að verða það einnig.  Margir eru þó sammála um að einfalda þyrfti þetta umhverfi og gera það skilvirkara, og barátta fyrir því er eitt af meginverkefnum SFH.

Alþingi     www.althingi.is

Alþingi Íslendinga vinnur fyrst og fremst að lagasetningu og er þannig  mikilvægasti þátturinn í mótun stuðningsumhverfis nýsköpunar.  Einnig er það hlutverk Alþingis að ráðstafa almannafé úr ríkissjóði, bæði til stuðningssjóða og í mörgum tilvikum til einstakra verkefna.  Á vef Alþingis er góð leitarvél fyrir lagasafn.  Fjölmörg lög snerta starfsemi frumkvöðla og sum innihalda ívilnandi ákvæði, s.s. nýleg lög um nýsköpunarfyrirtæki.

Ríkisstjórn
 og einstök ráðuneyti hafa framkvæmdavaldið með höndum, og móta stefnu í málefnum nýsköpunar innan lagaheimilda.  Undir þau heyra ríkisstofnanir.

Rannís   www.rannis.is

Í kynningu á heimasíðu segir: “Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) veitir stuðning við rannsóknir, rannsóknatengt nám, tækniþróun og nýsköpun. Stofnunin er náinn samstarfsaðili Vísinda- og tækniráðs og hefur það hlutverk að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu ráðsins. Rannís aðstoðar vísinda- og tæknisamfélagið með rekstri samkeppnissjóða, aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum auk þess að að kynna áhrif rannsókna og nýsköpunar á þjóðarhag”.  

Rannís sér um úthlutun úr nokkrum sjóðum:

Tækniþróunarsjóður hefur það hlutverk “að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi”.  Megnið af styrkjum Tækniþróunarsjóðs hefur runnið til háskólatengdra verkefna og stórfyrirtækja, en almennir frumkvöðlar eiga væntanlega aukna möguleika með hinum nýja flokki frumkvöðlastyrkja.

Rannsóknarsjóður hefur það hlutverk “að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja”.   Segja má að þessi sjóður hafi verið lokaður öðrum en háskólum og rannsóknastofnunum þeim tengdum.

Tækjasjóður veitir eingöngu styrki til rannsóknastofnana, til tækjakaupa.
Auk þess eru í vörslu Rannís:  Rannsóknarnámssjóður; Launasjóður fræðirithöfunda; Nýköpunarsjóður námsmanna og fleiri sjóðir.
Rannís er einnig umsjónaraðili Íslands gagnvart fjölmörgum erlendum samstarfssjóðum, þar á meðal sjóðum á vegum ESB.  Nánar um það hér: www.rannis.is/althjodastarf.

 Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins  www.nsa.is

NSA er, eins og segir á vefsíðu; “Áhættufjárfestir sem tekur virkan átt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.  NSA hefur að leiðarljósi að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem vænta má mikils virðisauka og arðsemi af starfsemi og góðrar ávöxtunar fyrir Nýsköpunarsjóð”.  Hér er því ekki um að ræða úrræði fyrir nýsköpunarverkefni sem eru að hefja sína starfsemi og hafa enn ekki náð að sanna arðsemi sína, heldur fremur atvinnufjárfesti með verulegar ávöxtunarkröfur á sín framlög.

Frumtak   www.frumtak.is

“Frumtak slhf. er fjárfestingasjóður sem fjárfestir í sprota og nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og eru vænleg til vaxtar og útrásar.   Sjóðurinn  hefur það markmið að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði þannig að þau skili ekki aðeins góðri ávöxtun til fjárfesta heldur leggi einnig sitt af mörkum til þess að bæta það samfélag sem þau búa í”.  Hér er því um að ræða fjárfesti sem eingöngu kemur að vel þroskuðum fyrirtækjum, en ekki verkefnum á byrjunarstigi. 

AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi   www.avs.is

Á heimasíðu segir:  “AVS rannsóknasjóður veitir styrki til rannsóknaverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis.  Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum”.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins  www.fl.is
FL veitir styrki til ýmiskonar framfaramála í landbúnaði og umbóta í búskap. 

Orkusjóður   www.os.is/page/orkusjodur

Starfar í tengslum við Orkustofnun og veitir styrki til margvíslegra verkefna í orkumálum.

Ferðamálastofa   www.ferdamalastofa.is

Starfar á víðtækum grunni að málefnum ferðaþjónustu.  Veiti m.a. styrki til úrbóta og umhverfismála á ferðamannastöðum. Hér hefur verið minnst á nokkra af hinum stærri aðilum á sviði styrkja og ráðgjafar.  Fjölmarga aðra aðila mætti þó nefna, en þjónusta þeirra er yfirleitt bundin við þeirra fagsvið.  Þannig veita einstök stórfyrirtæki og stofnanir styrki til verkefna sem gætu komið þeirra starfsemi til góða á einhvern hátt.  Má þar t.d. nefna orku- og framleiðslufyrirtæki.  Landshlutastofnanir, s.s. vaxtarsjóðir og menningarsjóðir, veita styrki til verkefna á sínu svæði.  Ráðuneyti búa sumhver yfir styrkjaflokkum til verkefna á þeirra sviði, t.d. menntamálaráðuneytið.  Enn á ný skal það ítrekað að styrkjaumhverfið er víðtækur og flókinn frumskógur fyrir ókunnuga.  Best er að leita sér ráðgjafar hjá reyndum og traustum aðilum, t.d. innan SFH.

Klak – Icelandic startups
www.klak.is
…viðskiptahraðlar og vinnusmiðjur fyrir frumkvöðla.
Klak hjálpar frumkvöðlum að raungera hugmyndir sínar, fjölgar sprotafyrirtækjum sem byggja á hugviti og eykur þannig sjálfbæra verðmætasköpun Íslands. Við hjálpum sprotafyrirtækjum að vaxa innanlands og út fyrir landsteinana með því að hraða þróun þeirra og tengja þau við sérfræðinga, fjárfesta og aðra lykilaðila. Klak hefur fyrir löngu skipað sér sess sem lykilaðili í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og leggur sig fram við að vera leiðandi afl í grasrót frumkvöðlasamfélagsins.

Hafðu samband. Símanúmer og netföng stjórnarmanna SFH er að finna hér.

Stjórnarmenn SFH eru:

Valdimar Össurarson, formaður guva@simnet.is S. 862 2345
Elinóra Inga Sigurðardóttir, ritari  elinoras@gmail.com S. 898 4661
Eggert Ólafsson, gjaldkeri girding@visir.is
Júlíus Valsson, varamaður juliusv@simnet.is
Sigurjón Haraldsson varamaður sigurjon@stofanet.dk