Laugardaginn 15. október 202
Það blés ansi hressilega en byrlega um okkur hina fáu og huguðu sem börðust á móti Kára á Kjalarnesi á leið okkar upp á Akranes laugardaginn 15. október 2022.
Hjá þróunarfélaginu Breið sem tekið hefur sér bólfestu í glæsilegu fiskverkunarhúsi HB-Granda sem nú er í eigu Brims hf ríkti hins vegar stóísk ró og friður enda laugardagur og fáir á ferli nema Gísli Gíslason stjórnarformaður Breiðarinnar. Frá honum geislaði hlýja og speki eins og hjá gömlum traustum skipstjóra sem kann að sæta lagi í ölduróti. Klæddur duggarapeysu gaf hann sér góðan tíma til að spjalla við okkur, sýndi okkur glæsilegt húsnæðið og aðstöðuna, bauð upp á kaffi og tók í nefið.
Þróunarfélagið Breið er samvinnuverkefni Akraneskaupstaðar og Brims hf. sem hefur það markmið að byggja upp Breiðina og styðja við atvinnuppbyggingu og nýsköpun á Akranesi til framtíðar. Núverandi starfsemi fer m.a. fram á rannsóknar- og nýsköpunarsetri, stóru samvinnurými og Fab Lab smiðja Vesturlands. Fab lab (Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur einstaklingum og fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og láta hugmyndir verða að veruleika.
Hér er hægt að skoða ársskýrslu Fab lab smiðju Vesturlands 2021
Breið þrónunarfélag býður frumkvöðlum upp á glæsilega aðstöðu og ráðgjöf gegn vægu gjaldi. Einnig er þar aðstaða til smíða frumgerða og þróunar verkefna í samvinnu við margvíslega sérfræðinga. Það er óhætt að mæla með heimsókn til Gísla á Breiðinni því hann og hans fólk munu taka vel á móti hugmyndaríku fólki.
Við þökkum Gísla Gíslasyni kærlega fyrir frábærar móttökur og fróðlega kynningu! Stuttu eftir að við vorum aftur komin í bæinn var veginum lokað vegna fárviðris svo við sluppum með skrekkinn en eftir lifa góðar minningar frá heimsókn okkar upp á Akranes (Florida-skaga).
Í lok heimsóknarinnar afhenti Elinóra Inga, í þakklætisskyni, Gísla eintak af bók sinni, “Hugmyndabókin” sem eflaust mun koma sér vel við að virkja hugvitið á Skaganum
Nokkrar mynningar í myndum frá heimsókn SFH á Breiðina á Akranesi: